Það var þann 1. október 2021 sem Hafrannsóknastofnun tilkynnti landi og þjóð að ráðgjöf til loðnuveiða næmi allt að 904.200 tonnum. Tillagan vakti strax mikla athygli en um stærstu ráðgjöf var að ræða síðan árið 2003 eða í 18 ár. Árið á undan var ráðgjöfin 128.600 tonn og því um 7x meiri afli í ár. Greiningaraðilar á markaði lögðu strax fram spá um að verðmætin fyrir þjóðarbúið yrðu gífurleg, eða um 50-100 milljarðar og gætu slegið á atvinnuleysi og aukið hagvöxt um allt að 0,8% fyrir þjóðarbúið.

Fyrir vertíð voru þó strax nokkur varúðarsjónarmið sett fram. Þar á meðal:

  • afkastageta fisk- og mjölvinnsla í landi hefur tekið töluverðum breytingum frá því að svo miklum afla var síðast landað og afkastageta í landi mögulega ekki næg til að takast á við jafn stóra úthlutun.
  • markaðsaðstæður í Austur-Evrópu voru nefndar og markaður fyrir hæng talinn með veikasta móti sökum lágs kaupmáttar eftir covid og hættu á átökum á svæðinu.
  • seinni mæling Hafró gæti skilað verri niðurstöðum og dregið leyfilegt magn til að veiða niður á við.
  • veðurfar á tímabilinu jan-mars getur verið með versta móti og brælutíð því stór áhrifaþáttur.

Það voru því fleiri en tveir varnaglar slegnir í upphafi vertíðar og varað við því að mögulega myndi ekki takast að veiða þau 904 þúsund tonn sem ráðgjöf Hafró. Strax í byrjun kom óvæntur orkuskortur Landsvirkjunar aftan að útgerðinni og voru fyrstu fréttir af vertíð ansi svartar þar sem útgerðarmenn tilkynntu að það þyrfti að bræða með olíu í stað rafmagns.

Magn eða gæði?

Fyrstu vikur vertíðar fóru nokkuð rólega af stað en mokveiði hófst þó í kringum 6.viku en á vikum 6-9 veiddust um 42% af heildarafla yfir vertíðina. Á myndum hér að neðan má sjá þróun á veiddu magni yfir vertíðina þar sem mestur afli kom á land í 9 viku eða um 62.257 tonn. Vikur 9-11 voru sérstaklega slæmar vegna veðurs og þegar skipt var yfir í loðnunót um miðjan febrúar byrjuðu skip að landa minna magni en í loðnuflotvörpu.

Aflahæsta skip hverrar viku

Þrátt fyrir fréttir af heimsmetalöndunum trekk í trekk í byrjun vertíðar er það er þó ekki lengur helsta keppikeflið að landa sem mestu upp úr sjó heldur er gerð krafa um að skapa sem mest verðmæti úr aflanum. Mjöl og lýsi er langsamlega stærsta vinnsluaðferðin fyrir loðnuafurðir en eftirfarandi mynd sýnir áætlað hlutfall vinnslu eftir skipum.

Heildarúthlutun til þeirra 22 íslensku skipa sem hér er fjallað um nam 683.828 tonnum en eins og sjá má á mynd hér að neðan veiddust 521.473 tonn sem gerir um 76,3% nýtingu á kvóta. Því má segja að 162.355 tonn hafi farið forgörðum en m.v. forsendur loðnufrétta gera það 119,3 milljónir dollara eða um 15 milljarða íslenskra króna ef miðað er við meðalgengi dollarans gagnvart krónu yfir vertíðina. Fyrir þau tonn sem komu að landi þá gera útreikningar Loðnufrétta ráð fyrir að hæst verðmæti per kíló hafi verið framleidd hjá Vinnslustöðinni en Loðnuvinnslan fylgir fast á eftir.

Verðmætin

Enn er of snemmt að segja til um endanleg verðmæti vertíðar því enn er ekki búið að selja allar afurðir og verðmyndun mun geta komið til með að breytast eftir því sem fram líða stundir. Eitt skal þó hafa í huga varðandi verðmæti loðnu og sölu á loðnuafurðum, að birgðirnar eru ekki seldar “on the spot”. Svo dæmi sé tekið þá seldi Loðnuvinnslan hluta af birgðum ársins 2018 á metverði árið 2020 eftir loðnubrest ársins 2019. Ef til er geymslupláss þá liggur fyrirtækjum ekki lífið á að selja og því geta verð hækkað eftir því sem líður á.

Ef borið er saman við það sem búist var við vertíðina og það sem útgerðarmenn hafa sagt áður þá má segja að vertíðin hafi verið viss vonbrigði þrátt fyrir ánægjuraddir með að ná að veiða yfir 500.þús tonn í fyrsta skipti síðan vertíðina 2012. Skv. einni spá hafið verið verið reiknað með rúmlega 18.000 tonnum í hrogn miðað við aflatölur er innlend hrognaframleiðsla í kringum 9400t. Ef teknar eru með erlendar landanir er birgðastaða hrogna hér á landi um 12.345tonn. Hér að neðan eru birtar mismunandi sviðsmyndir fyrir þau verðmæti sem við teljum að núverandi birgðastaða geti skilað miðað við ákveðið nýtingarhlutfall og verð fyrir hvert hráefnistonn af framleiddum hrognum.

Stuðst er við hrognanýtingarhlutfall upp á 12,62% sem er vegið meðaltal um 90% skráðra hrognaendurvigtana skv. gögnum frá fiskistofu. Skv. heimildum loðnufrétta hefur tonnið verið að seljast á um 10.000 dollara undanfarið. Miðað við þær forsendur má áætla að hrognavinnsla hafi skilað verðmætum upp á 87,1 milljónum dollara eða um 11,2 milljörðum íslenskra króna m.v. meðalgengi dollarans yfir vertíðina. Gerir það um 23,3% hlutfall af áætluðum heildarverðmætum vertíðarinnar. Athugið að fiskistofa gefur ekki upp allar endurvigtunartölur og því er meðalnýting áætluð stærð af þeim endurviktunarfærslum sem voru færðar inn á fiskistofu. Nýtingin getur því gefið skakka mynd á verðmæti hrogna en loðnufréttir gera þó ráð fyrir að uppgefin meðalnýting sé nokkuð nákvæm.

Eins og áður kom fram þá erum við lauslega að reikna með að framleidd hrogn í landinu hafi verið um 8.700 tonn. Loðnufréttir eru ekki með upplýsingar um erlendar landanir en svo dæmi sé aftur tekið af Loðnuvinnslunni þá hafa færeyskar landanir á loðnu þar skilað sér í hrognum inn í hús. 

Hafnir og sveitafélög

Þegar litið er yfir þær hafnir sem landað var í, þá má sjá að Vestmannaeyjahöfn ber höfuð og herðar yfir aðrar í lönduðu magni eða tæpum 33.000 tonnum meira en Neskaupstaður sem kom næst á eftir. Ef magnið er talið fyrir sveitafélög er það hinsvegar Fjarðabyggð sem ber höfuð og herðar en Eskifjörður, Fáskrúðsfjörður og Neskaupsstaður eru með 160.098tonn lönduð.